Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
11. nóvember 2015 15:43

Enn um fiskþurrkun

Fiskþurrkun HB Granda á Akranesi hefur verið mikið til umræðu hér á þessu ári. Ástæðan er sú að HB Grandi hefur óskað eftir því að deiliskipulagi á Breiðarsvæði verði breytt þannig að fyrirtækið geti byggt nýtt hús fyrir fiskþurrkun og jafnframt óskað eftir því að afköst starfseminnar verði aukin í 600 tonn á viku úr 170 tonnum. Ég hef blandað mér í þessa umræðu með nokkuð áberandi hætti vegna þess að mér líst illa á þessi áform HB Granda.

 

Í mínum huga hefur umræðan snúist um tvö mál:

A.    Núverandi starfsemi fiskþurrkunar HB Granda og mengun frá henni.

B.     Áform HB Granda um að byggja nýtt hús fyrir starfsemina og auka afköstin.

 

Á árinu hefur umræðan þróast á þann veg að nú virðast flestir sem tjá sig um það sem ég kalla mál A, vera sammála því að núverandi ástand sé óviðunandi. Ég geri því ráð fyrir að HB Grandi loki fiskþurrkun sinni 1. febrúar á næsta ári þegar starfsleyfi fyritækisins rennur út, enda erfitt að sjá fyrir sér að starfsleyfið verði framlengt, m.a. vegna þess að húsið við Vesturgötu þar sem eftirþurrkunin fer fram er ónýtt, svo vitnað sé í orð Vilhjálms forstjóra HB Granda í Kastljósi RUV fyrir stuttu. Enn fremur má færa gild rök fyrir því að fyrirtækið uppfylli ekki öll skilyrði sem því eru sett í starfsleyfinu.

 

Eftir stendur því mál B. Um það mál eru mjög skiptar skoðanir. Þeir sem eru sammála því að deiliskipulaginu verði breytt þannig að áform HB Granda geti orðið að veruleika, halda því fram að lyktarmengun frá fiskþurrkuninni í nýju húsi verði lítil sem engin og því ekkert að óttast fyrir þá íbúa á Akranesi sem þola illa ólykt frá svona starfsemi. Rök þeirra minna stundum óþægilega mikið á þau rök sem notuð voru þegar ákveðið var að Laugafiskur fengi að koma á Akranes með fiskþurrkun sína árið 2003. Þá sögðu menn m.a. að nú væri komin ný tækni til að eyða lykt svo ekkert væri að óttast. Reynslan hefur sýnt annað. Svo eru það hinir sem telja að lyktarmengun verði áfram af fiskþurrkuninni þrátt fyrir nýtt og betra hús.

 

Ég tilheyri þeim hópi fólks sem vill ekki hafa fiskþurrkun í nágrenni við íbúabyggð. Ástæður mínar fyrir því eru eftirfarandi:

 

1.      Það mun alltaf vera lykt/ólykt frá fiskþurrkun. Það kemur skýrt fram í skýrslu VSÓ um fiskþurrkun sem kynnt var á íbúafundi sem haldinn var í Tónbergi 28. maí s.l.

2.      Ég tel að fiskþurrkun á Breiðinni muni skerða lífsgæði fólks sem býr í nágrenninu.

3.      Ég tel að fiskþurrkun muni hafa neikvæð áhrif á Neðri-Skagann, þ.m.t. Akratorg, Breiðina og Sementsreitinn.

4.      Ef áform HB Granda um stækkun fiskþurrkunarinnar verður samþykkt þá verður hér starfrækt fiskþurrkun um ófyrirsjáanlega framtíð.

 

Að mínu mati eru kostirnir í þessu máli tveir:

 

1.      Ósk HB Granda um breytingu á deiliskipulaginu verður samþykkt.

2.      Á Akranesi verður ekki fiskþurrkun áfram í grennd vð íbúabyggð.

 

Ég vona að kostur 2 verði niðurstaðan þegar þetta mál hefur verið afgreitt.

 

Ég hef ekki heyrt neinn halda því fram að starfsemin verði lyktarlaus þótt hún verði komin í nýtt og betra hús. Þeir sem segja að þetta verði í lagi hafa alltaf einhverja fyrirvara eins og t.d: „Draga mun úr lykt“. Í skýrslu VSÓ sem ég nefni hér að ofan segir m.a. á bls. 4: „Lyktarmál geta verið snúin m.a. vegna þess hversu mismunandi smekkur og þol fólks er fyrir lykt. Lyktarskyn fólks er mismunandi og einnig er nefið mjög misnæmt fyrir lykt.“ „Í ákveðnum vindáttum og jafnvel í logni getur lykt sem að öllu jafnan veldur ekki óþægindum orðið óbærileg.“ Á bls. 5 segir m.a: „Reynslan sýnir að þegar ein lyktaruppspretta er fjarlægð vilja koma fram aðrar uppsprettur af lykt sem ekki fundust áður þar sem lyktin var sterkari af þeirri sem er fjarlægð.“  Eru menn tilbúnir að taka þessa áhættu?

 

Það er deilt um fiskþurrkun víðar en á Akranesi. T.d. hefur lengi verið deilt um fiskþurrkun Lýsis hf í Þorlákshöfn. Nú sér fyrir endann á þeim deilum því Lýsi hf hefur ákveðið að hætta starfsemi fiskþurrkunar sinnar i Þorlákshöfn og finna henni annan stað fjarri íbúabyggð. Frá þessu var sagt í Hafnarfréttum þ. 1. júlí. Í frétt Hafnarfrétta kemur einnig fram að Lýsi hf hafi á liðnum árum eytt tugum milljóna í mengunarvarnarbúnað án tilætlaðs árangurs.

 

Senn kemur að því að bæjarstjórn Akraneskaupstaðar afgreiðir ósk HB Granda um breytingu á deiliskipulagi á Breiðarsvæðinu. Þá verða bæjarfulltrúar að hafa í huga að ef óskin verður samþykkt þá verður ekki aftur snúið. Ég hvet bæjarfulltrúa til að taka ákvörðun sem byggð er á ítarlegum upplýsingum, reynslu, framsýni og á málefnanlegum grunni. Það þarf að ræða málið vel og forðast að láta hræðsluáróður sem stundum hefur heyrst í umræðunni hafa áhrif á ákvarðanatöku.

 

Hörður Ó. Helgason.

 

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is