Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
2. febrúar 2016 09:53

Yfirlýsing frá Íbúasamtökum Hvanneyrar og nágrennis

Þann 12. janúar síðastliðinn sendu Íbúasamtök Hvanneyrar og nágrennis inn beiðni til Borgarbyggðar um stofnun sjálfstætt starfandi skóla á Hvanneyri. Óskað var eftir að Borgarbyggð myndi greiða 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu á hvern nemanda en það er lágmarks framlag sveitarfélaga til sjálfstætt starfandi skóla. Viðkomandi erindi var hafnað af byggðarráði Borgarbyggðar 21. janúar. Það vekur furðu að erindi sem varðar stórfellda hagsmuni íbúa Hvanneyrar, nágrannasveita og Borgarbyggðar allrar, fái ekki umfjöllun á faglegum, fjárhagslegum og síðast en ekki síst samfélagslegum forsendum. Forsvarsmenn umsóknarinnar voru hvorki boðaðir til fundar né óskað eftir nánari gögnum frá þeim til þess að viðra málið. Málið var einfaldlega afgreitt endanlega á einum byggðarráðsfundi og fékk ekki meðferð í fræðslunefnd.

 

Þann 26. janúar sendu Íbúasamtökin sveitarstjórn bréf þar sem óskað var eftir rökum fyrir höfnun erindisins um stofnun sjálfstætt starfandi skóla þar sem bókun byggðarráðs um málið var engan vegin fullnægjandi. Beðið er eftir svari.

 

Hugmyndinni um sjálfstætt starfandi skóla á Hvanneyri hafa nokkrir íbúar velt fyrir sér í þónokkur ár og er því hugmyndin sem lögð var fram vel ígrunduð. Í umsókn okkar er farið yfir starf skólans og áherslur, sem og fjármögnunarleiðir og rekstur. Í starfi skólans yrði áhersla lögð á samvinnu nemenda, kennara og samfélagsins alls. Áhersla yrði lögð á náttúru- og umhverfismennt með útinámi og hreyfingu sem samþættist inn í allar námsgreinar. Stefnt væri að því að vinna áfram og dýpra með leiðtogafærni í gegnum verkefnið ,,Leiðtoginn í mér”. Í umsókninni er stefnt að því að á þriðja starfsári skólans yrði boðið upp á kennslu upp í 7. bekk, einkum vegna stærðarhagkvæmni en einnig til að styrkja byggðarkjarnann enn frekar. Með stofnun slíks skóla á Hvanneyri myndi aðdráttarafl staðarins að öllum líkindum aukast og þar af leiðandi íbúum fjölga. Þetta gæti haft góð áhrif í för með sér fyrir Kleppjárnsreykjaskóla þar sem að Hvanneyri og nágrenni myndi skila af sér fleiri nemendum á unglingastigi þangað, einmitt þegar þörf barna er hve mest fyrir gott félagaval.

 

Í umsókninni er sýnt fram á meiri fjárhagslega hagræðingu fyrir Borgarbyggð með því að samþykkja stofnun sjálfstætt starfandi skóla en við það að færa 1. – 3. bekk í leikskólann Andabæ. Í upphafi áætlaði sveitarstjórn að með þessum hagræðingaraðgerðum á Hvanneyri mætti spara sveitarfélaginu u.þ.b. 40 milljónir en samkvæmt skjali frá sveitarstjóra sem lagt var fram á byggðarráðsfundi 3. desember 2015 er fjárhagsleg hagræðing nú orðin 11,4 milljónir. Spila þar ýmsir þættir inní en mestu munar þó um lægra framlag frá Jöfnunarsjóði sem sveitarstjórn láðist að taka með í reikninginn en einnig sú breyting að 1.-3. bekkur verður tekinn inn í leikskólann Andabæ. Þess ber þó að geta að innri leiga er um 7 milljónir af þessum 11,4 milljónum svo endanleg hagræðing er ekki meiri en 4 milljónir. Með stofnun sjálfstætt starfandi skóla mætti hagræða um 16 milljónir króna miðað við sama nemenda- og starfsmannafjölda og starfsárið 2014 – 2015.

 

Þá er ennfremur rétt að geta þess að boð sveitarstjórnar um að færa þrjá grunnskólabekki í leikskólann Andabæ án þess að ætla að leggja í kostnað við stækkun hans er aðeins lausn til tveggja ára, m.a. samkvæmt oddvita Framsóknarflokksins sem gegnir einnig hlutverki formanns fræðslunefndar Borgarbyggðar. Ekki hafa borist neinar upplýsingar um það hvernig ætlunin sé að útfæra þessa leið og því er ómögulegt fyrir íbúa, sem og starfsfólk, að leggja mat á það hvort að segja skuli ,,já“ eða ,,nei“ við þeirri leið eins og sveitarstjórn og embættismenn eru byrjuð að pressa á. Skólaráð GBF óskaði að auki eftir fresti til að veita umsögn um málið þar til að ákveðnar upplýsingar um skólastarfið, sem ráðið óskaði eftir, lægju fyrir en fræðslunefnd hafnaði þeirri beiðni.

 

Að endingu skal nefna að því fer fjarri að stjórn Íbúasamtaka Hvanneyrar og nágrennis hafi verið þvermóðskan uppmáluð í garð sveitarstjórnar á síðastliðnu ári. Þvert á móti höfum við margoft boðið fram aðstoð okkar við að finna lausn á málinu en lítið hefur verið um viðbrögð. Við höfum lagt ýmsar sviðsmyndir fram á borðið sem mögulega væri hægt að búa til sátt um, m.a. sjálfstætt starfandi skóla og svo samrekinn leik- og grunnskóla í Andabæ upp í 4. bekk með kaupum á færanlegri kennslustofu sem kostar u.þ.b. 1 milljón króna. Okkar hugmyndir hafa ekki hlotið hljómgrunn.

 

Ljóst er að málið hefði þurft að vinna betur frá upphafi. Byrja hefði átt að móta skólastefnu fyrir sveitarfélagið áður en niðurskurður hófst. Því hefur það verið og er okkar tillaga og krafa að málið verði núllstillt; ákvörðun um lokun Hvanneyrardeildar GBF dregin til baka og öllum hagsmunaaðilum víðs vegar úr sveitarfélaginu boðið að borðinu og lausn fundin á málinu. Ánægjulegt þykir okkur að hægt sé að leggja fjármagn í löngu tímabærar breytingar á Grunnskólanum í Borgarnesi sem og í framtíðarlausn fyrir leikskólann Hnoðraból en að sama skapi er undarlegt að ekki séu til 11,4 milljónir, eða í rauninni einungis 4 milljónir, til þess að halda áfram rekstri á grunnskóladeild GBF á Hvanneyri í núverandi mynd.

 

Við skorum á sveitarstjórn að draga til baka ákvörðun sína um lokun Hvanneyrardeildar GBF. Algjör forsendubrestur er orðinn í málinu þar sem ljóst er að áætlaður sparnaður sem lagt var upp með mun ekki nást og afleiðingarnar hafa nú þegar leitt til tekjuskerðingar fyrir sveitarsjóð. Ef það er sveitarfélaginu nauðsynlegt að hagræða um 4 milljónir þá er án efa hægt að finna þær milljónir á einhvern annan veg, á veg sem er ekki jafn íþyngjandi fyrir íbúa sveitarfélagsins.

 

Stjórn Íbúasamtaka Hvanneyrar og nágrennis.

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is