Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
4. mars 2016 10:46

Fundur um skógrækt og umhverfi

Næsta mánudag, 7. mars kl. 20, heldur Skógræktarfélag Akraness fund í Grundaskóla. Þar mun Jón Guðmundsson garðyrkjufræðingur flytja erindi um það hvaða plöntum megi bæta inní skógræktarsvæðin auk þeirra sem þar eru núna.  Án vafa verður þetta fróðlegt erindi fyrir allt áhugafólk um skógrækt og útivist. Jón er kunnur fyrir eplarækt sína við sjóinn á Skaganum, nokkuð sem fáir trúðu að væri mögulegt áður en hann byrjaði á sinni ræktun. Mun almenningur í framtíðinni geta farið út í skóg og týnt epli, ber, sveppi eða annað nýtilegt? Skógrækt er jú ekki bara til prýði, úr skógum má fá ýmsar afurðir.  Við skógræktarfólk fáum ókeypis tré frá Landgræðslusjóði samkvæmt sérstökum samningi.  Plöntuúrvalið er ekki mikið, fyrst og fremst fljótsprotnar og harðgerðar tegundir sem hafa sannað sig á Íslandi; birki, ösp, fura, greni, lerki, reyniviður og nokkrar víðitegundir. Ýmsar aðrar tegundir hafa sannað sig þegar búið er að rækta upp skjól fyrir þær.  Skógræktarfélögin þurfa hins vegar að kaupa þau tré sem er ofviða litlum fjárvana félögum.

 

Á fundinum mun Íris Reynisdóttir garðyrkjustjóri fjalla um skógrækt á Akranesi og við í Skógræktarfélagi Akraness munum fjalla um verkefni félagsins á næstu mánuðum.  Loks verður gefinn góður tími í fyrirspurnir og umræður.  Ég hvet allt áhugafólk um skógrækt og umhverfismál til að mæta á fundinn. Það er nauðsynlegt fyrir okkur skógræktarfólk sem og bæjaryfirvöld að heyra hvaða skoðanir og hugmyndir fólk hefur um umhverfi sitt.

 

 

 

Stækkun skógræktarsvæðisins á Akranesi

Á árinu 2016 er fjölmargt á döfinni hjá Skógræktarfélagi Akraness. Auk þess sem við ætlum að gróðursetja rúmlega 11 þúsund tré, álíka fjölda og á síðasta ári, þá sækjum við um stækkun skógræktarsvæðisins í Slögu. Við höfum sótt um stækkun síðan 2009 en hægt hefur miðað. Svæðið heyrir undir Hvalfjarðarsveit þó það sé í eigu Akraness. Því þarf að sækja um breytingu á skipulagi til fyrrnefnda sveitarfélagsins. Við höfum fundið fyrir velvilja hjá báðum sveitarfélögunum en nú hefur komið óvænt bakslag. Sauðfjárbóndi sem á land að skógræktarsvæðunum hefur gert athugasemdir við landamörkin þarna en Akraneskaupstaður keypti þetta land af Ósi árið 1929. Fyrir venjulegt fólk er óskiljanlegt að nú fyrst sé gerður ágreiningur um þetta en úr þessu verður að greiða áður en við getum hafið skógrækt þarna.

 

Sauðkindin tekur því ansi mikinn tíma og orku frá okkur skógræktarfólki. Þras um landamörk bætist við eltingarleik við rollur sem herja á okkar skógræktarsvæði mestallt sumarið. Við þurfum að eyða næstum því eins miklum tíma í vesen sem tengist sauðkindinni eins og í skógræktina sjálfa. Því miður er ekkert bann við lausagöngu búfjár og því getur sauðkindin étið allan nýgræðing okkar. Það er vandamál okkar skógræktarfólks (og bæjarfélagsins) að girða skógræktina af, sauðfjárbóndinn þarf ekki að hafa fyrir neinu. Kannski ættum við að fá veglegan ríkisstuðning við okkar skógrækt eins og bændur við sinn sauðfjárbúskap? Við hefum ekkert á móti því að bæta aðstöðu almennings í skógræktinni með lagningu stíga og umhirðu þeirra og stuðning við að koma upp annarri aðstöðu eins og bekkjum og íþróttaáhöldum. Slíkar framkvæmdir myndu fegra umhverfið, bæta útivistaraðstöðu fólks (göngu- og hjólreiðastígar) og kannski draga að ferðamenn?

 

Viltu gerast félagi í Skógræktarfélagi Akraness?

Ég hvet alla Akurnesinga til að gerast félagar í skógræktarfélaginu. Með því styður þú við skógrækt og fegrun umhverfisins í landi Akraness og getur haft áhrif á það hvað er gróðursett og hvar. Skógrækt er auk þess einhver hollasta og besta útivera og heilsuvernd sem til er. Skógræktarfélagið þarf ekki aðeins stuðning þeirra sem geta tekið þátt í starfinu. Þeir sem ekki hafa tíma til að taka þátt eða geta það ekki af öðrum ástæðum geta stutt starf félagins með því að gerast félagar. Félagsgjald er 2.000 krónur á ári. Sækja má um aðild á heimasíðu félagsins: http://www.skog.is/akranes/ eða senda tölvupóst á jensbb@internet.is eða hringja í síma 897 5148.

 

Jens B. Baldursson.

Höf. er formaður Skógræktarfélags Akraness.

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is