Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
9. mars 2016 15:21

Nokkrar athugasemdir við greinar Halldórs Jónssonar og Þorgeirs Jósefssonar

Tilefni greina þeirra Halldórs og Þorgeirs í Skessuhorni 2. mars síðastliðinn er undirskriftasöfnun sú sem fram fer á vefnum betraakranes.org. Þeir reyna báðir að gera þessa undirskriftarsöfnun tortryggilega vegna þess að á vefnum komi ekki fram hverjir það eru sem standa að henni. Degi áður en greinar þeirra Halldórs og Þorgeirs voru birtar í Skessuhorni var búið að bæta eftirfarandi á vefinn:

„Að Betra Akranesi, vefnum betraakranes.org og undirskriftasöfnun gegn nýju deiliskipulagi á Breið, stendur áhugahópur um betri byggð á Akranesi. Þeirra á meðal teljast þessir:...“

Á eftir þessari klausu eru talin 10 nöfn, þeirra á meðal nafn undirritaðs. Það var auðvitað aldrei ætlun okkar að hafa það leyndarmál hverjir stæðu að þessum vef, enda höfum við sem barist höfum gegn fisk-þurrkun við íbúabyggð komið víða fram opinberlega og aldrei leynt nöfnum okkar, enda engin ástæða til.

 

 

Í grein sinni reynir Halldór Jónsson að sannfæra lesendur um það að hausaþurrkun á Breiðinni hafi aldrei haft og muni ekki hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Akranesi. Ég vil benda Halldóri á að við sem stöndum að Betra Akranesi höfum ekki talað mikið um þessi hugsanlegu neikvæðu áhrif, það er annað sem er okkur ofar í huga. Ég er þó nokkuð viss um það að margir þeirra sem vinna við, eða hafa áhuga á, ferðaþjónustu á Akranesi hafa af því áhyggjur að lyktarmengun muni hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna. Mér finnst eðlilegt að fólk hafi þessa skoðun og ég er sammála henni. Við sem stöndum að Betra Akranesi leggjum þó aðaláherslu á að fiskþurrkun og lyktarmengun sem henni fylgir mun rýra lífsgæði þeirra sem búa í nágrenni við hana. Við höfum einnig áhyggjur af öðrum neikvæðum áhrifum, svo sem neikvæðum áhrifum á útivistarsvæðið á Breiðinni, uppbyggingu gamla bæjarins og uppbyggingu Sementsreitsins.

Þorgeir Jósefsson fullyrðir í grein sinni að við sem stöndum að betraakranes.org förum með rangt mál í eftirfarandi málsgrein sem er á vefnum okkar: „Akranes – 250 metrar frá fyrirhugaðri nýrri fiskþurrkun í næsta íbúðarhús – framleiðslugeta 600 tonn á viku.“ Um þetta vil ég segja eftirfarandi:

Í „Umhverfisskýrslu fyrir deiliskipulag Breiðarsvæðis á Akranesi“ sem HB Grandi gaf út þ. 19. janúar s.l. segir m.a. á bls. 10: „Áfangi 1: .... Við þessar framkvæmdir aukast afköst þurrkunar úr 170 tonna vinnslu á viku í um 250 – 300 tonn...“ „Áfangi 2: .... Við þessa framkvæmd mun afkastagetan aukast um 300 – 350 tonn á viku...“

Þorgeir bendir réttilega á eftirfarandi fyrirvara sem gerður er við þessi áform HB Granda í auglýsingu um breytingu á deiliskipulaginu: „Óheimilt er að veita byggingarleyfi fyrir áfanga 2 nema tekist hafi að tryggja viðunandi grenndaráhrif áfanga 1 í samræmi við umfjöllun þar um í meðfylgjandi umhverfisskýrslu og sýnt verði fram á með fullnægjandi hætti að grenndaráhrif, einkum vegna lyktar, versni ekki við byggingu áfanga 2.“

Hver á að meta „viðunandi grenndaráhrif áfanga 1“? Að mínu mati væri eðlilegast að íbúarnir í nágrenni við fiskþurrkunina hefðu eitthvað um það mat að segja. Nei, svo er ekki. Þetta mat verður unnið með svokölluðu „óháðu lyktarskynmati“ (Umhverfisskýrsla HB Granda bls. 17). Hvernig verður staðið að því? „Valdir verða 3 – 5 einstaklingar til að framkvæma lyktarskynmatið 1 – 2 sinnum í viku.“ (Umhverfisskýrsla HB Granda bls. 17). Þetta þykir mér ekki mjög traustvekjandi. Sú staða gæti hæglega komið upp að lyktarskynmatshópurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að grenndaráhrif áfanga 1 væru viðunandi, en íbúar í nágrenni við fiskþurrkunina væru alls ekki sammála því. Hvernig væri staðan þá? Samkvæmt fyrirvaranum væri ekkert því til fyrirstöðu að veita byggingarleyfi fyrir áfanga 2. Það má setja upp örlítið skárra dæmi. Gefum okkur það að lyktarskynmatið leiddi í ljós að ekki hefði tekist að tryggja viðunandi grenndaráhrif áfanga 1. Þá yrði ekki gefið út byggingarleyfi fyrir áfanga 2. Við sætum samt uppi með lyktarmengandi fiskþurrkun með 250 – 300 tonna afköstum á viku, nálægt því helmingi afkastameiri fiskþurrkun en nú starfar.

Mér litist betur á að HB Grandi gæfi út yfirlýsingu um að ef viðunandi grenndaráhrif áfanga 1 næðust ekki þá myndi fiskþurrkuninni verða lokað. Best litist mér þó á að bæjaryfirvöld hafni fyrirliggjandi skipulagstillögu og myndu hefja viðræður við HB Granda um aðra staðsetningu fyrir nýja fiskþurrkun, í sátt við alla íbúa Akraness.

 

Hörður Ó. Helgason, uppfræðari, kennari, fyrrverandi skólameistari og knattspyrnuþjálfari m.m.

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is