Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. mars 2016 11:00

Er þéttbýli án lyktar til?

Umræður um hausaþurrkun hafa staðið lengi á Akranesi. Þó hefur sú umræða aldrei farið mjög hátt, í það minnsta ekki á landsvísu og löngum náði hún ekki athygli fjölmiðla utan Akraness. Mörgum íbúum Akraness var þó löngum ljóst að margt mátti betur fara í vinnslunni. Samt sem áður er staðreyndin sú að vinnslan hefur fram að þessu haft vinnsluleyfi, þ.e. hún hefur uppfyllt þau skilyrði sem til hennar eru gerðar lögum samkvæmt. Reksturinn hefur nokkrum sinnum skipt um eigendur og húsbændur þar hafa verið margir.

 

Framfarir breytast í vandamál

Þegar HB Grandi festi kaup á rekstri Laugafisks og lagði í kjölfarið fram stórhuga hugmyndir um stórbætta aðstöðu við hausaþurrkun og uppbyggingu hennar á einum stað lifnaði yfir umræðunni að nýju. Umræðan snérist ekki um þær ánægulegu breytingar sem í vændum væru heldur hversu slæmt ástandið hefði verið í gegnum tíðina. Innan skamms var sú umræða komin úr böndum. Og nú fór að lifna yfir Ríkisútvarpinu okkar og varð málið fyrsta frétt í sérstökum fréttatíma sem settur var upp í tilefni Írskra daga í sumar. Er nú svo komið að stór hluti landsmanna telur að ólíft hafi verið um árabil á Akranesi vegna ólyktar.

Fyrst í stað var málflutningur andstæðinga framfaranna í fiskþurrkun á þann veg að ekkert væri að marka fyrirætlanir HB Granda. Með tíð og tíma kom í ljós að aðeins með því að bæta húsakost mætti stórbæta vinnsluna og þegar við bættist betri tækni fór staðan að þrengjast. Þegar síðan í ljós kom að á stöðum eins og Sauðárkróki, Grindavík og Vestmannaeyjum fer þessi vinnsla fram í sátt við íbúa var orðið erfitt um vik að halda því fram að ekki væri hægt að bæta vinnsluna.

 

Hugtakið loftgæði verður til

Um síðir varð til í munni andstæðinga framfara í hausaþurrkun á Akranesi hugtakið „Sömu loftgæði fyrir alla“ og mun þar átt við alla íbúa Akraness, í það minnsta. Andstæðingarnir segjast ekki vera á móti hausaþurrkun eða atvinnuuppbyggingu. Hins vegar þurfi að tryggja þessi sömu loftgæði og því þurfi starfsemin að vera á einhverjum öðrum stað.

Veltum aðeins fyrir okkur þessu hugtaki og kröfunni á bak við hana í bæjarfélagi eins og Akranesi sem státar af fjölbreyttu mannlífi og fjölskrúðugu atvinnulífi, ennþá að minnsta kosti. Fylgir ekki þéttbýli að maður verði var við nágrannann að ekki sé talað um atvinnulífið, sem þéttbýlið hefur myndast í kringum?

 

 

Sömu „loftgæði“ fyrir alla?

Getur þéttbýli yfir höfuð tryggt „Sömu loftgæði fyrir alla“? Þeir sem það hugtak bjuggu til hafa ekki skilgreint nein mörk á þeirri kröfu og því má álykta að ávallt skuli jafnt skuli  alla ganga. Hausaþurrkunin er því væntanlega aðeins fyrsta málið. Skoðum þau mál sem fylgt gætu á eftir í nafni jafnræðis og munum að upplifun manna á lykt er alls ekki sú sama. Fjörulykt getur orðið mikil á Akranesi eins og öllum stöðum við sjávarsíðuna. Mörgum finnst hún afleit. Hvernig eigum við að bregðast við henni í framtíðinni? Fiskimjölsverksmiðjuna þekkja allir. Hún er ekki með öllu lyktarlaus. Á hún að víkja? Loðnulöndun fylgir stundum loðnulykt sem sumum finnst ekki góð. Eigum við að koma henni eitthvað annað? Matvælaframleiðslu fylgir lykt sem getur orðið talsverð. Allir þekkja lyktina frá bakaríum og veitingastöðum. Til að tryggja sömu loftgæði þyrfti sú starfsemi að vera utan íbúðabyggðar ekki satt? Hvað með járniðnað af ýmsu tagi? Af honum berst lykt. Þurfu við að færa hann? Bensínstöðvum fylgir stundum hvimleið lykt að ekki sé talað um eldhættuna. Eigum við að koma þeim annað? Hvað með landbúnaðinn. Frá honum berst nú ekki alltaf ilmvatnslykt heldur þvert á móti. Hvernig tryggjum við íbúm Ásabrautar og Víðigrundar sömu loftgæði og annarra íbúa Akraness? Hvað með lifrarvinnslu?  Eru loftgæðin frá henni ávallt í lagi að allra mati? Hrognavinnslan? Bifreiðaverkstæðin? Fiskmarkaðurinn? Þéttbýli fylgir umferð. Umferð fylgir bæði lyktarmengun og hávaðamengun. Hvar skyldu menn draga mörkin í þeim efnum?

 

Hvar liggja mörkin?

Ég veit að nú finnst mörgum ég vera kominn út í öfgar og farinn að gera úlfalda úr mýflugu. Það er að sumu leyti rétt. Það sem í dag er  talið sjálfsagt verður það ekki endilega á morgun. Í umræðum undanfarinna vikna hefur æ oftar heyrst sú skoðun hjá fullorðnu fólki að ekki sé forsvaranlegt að vöruflutningar fari fram í gegnum bæinn!  Við þurfum að hugsa málin til enda þegar við í hita leiksins búum til hugtök þar sem engin mörk eru dregin.  Einmitt þess vegna eru búnar til leikreglur í lýðræðisþjóðfélögum. Skipulagslög eru hluti af þeim leikreglum. Hugmyndir HB Granda um mikla uppbyggingu á starfsemi félagsins á einum stað eru nú í eðlilegu skipulagsferli. Afar brýnt er að þeirri vinnu ljúki í samræmi við lög og reglur. Þessar hugmyndir eru fagnaðarefni.

 

Styðjum framfarir

Undirskriftastöfnunin www.uppbyggingakranesi.is var sett á fót til þess að íbúar á Akranesi sem styðja þá uppbyggingu og vilja áfram búa í þéttbýli með kostum þess og göllum geti lýst stuðningi við þau. Stutt þannig þau  framfaraskref sem þar verða stigin. Styðum framþróun atvinnulífs en vísum því ekki „eitthvað annað“ með handahófskenndum hætti.

 

Halldór Jónsson

Höfundur er ábyrgðarmaður www.uppbyggingakranesi.is

 

 

 

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is