Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Smáauglýsingar

Sérhönnuð lúsmýsnet fyrir glugga

Höfum til sölu sérhönnuð lúsmýsnet fyrir glugga í heilum metrum. Leitið upplýsinga á postverslun.is
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. apríl 2016 11:20

Betri byggð, öruggari umferð

Um færslu þjóðarvegar með brú yfir utanverðan Grunnafjörð í Hvalfjarðarsveit

 

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um vegabætur út úr höfuðborginnni í vesturátt, það er Sundabraut, Kjalarnesið og Hvalfjarðargöng. Vafalaust allt þörf verkefni, ekki skal dregið úr því. Lengra hefur það ekki náð en þar tekur ekki við minni rússibanareið, það er að segja frá Hvalfjarðargöngum og að Hafnarfjalli og reyndar alla leið upp í Borgarnes. Á leið minni frá Akureyri síðasta sumar áttaði ég mig á því sem ég reynar hef vitað lengi að þetta er sá vegarkafli sem reynir hvað mest á ökumenn, bæði á þolimæði þar sem enginn möguleiki er á framúrakstri (lestarstjórar) eftir að komið var vestur fyrir Hafnarfjall og einnig vegna mikils fjölda afleggjara og gatnamóta á þessum fjölfarna vegi. Mikil umferð er í báðar áttir, enda leiðin vestur, norður og jafnvel einnig austur á land. Lausleg könnun mín sýndi að það er ekki minna en 40-50 staðir þar sem inn- og útakstur er mögulegur á þessum kafla, það er frá Melasveitarafleggjaranum norðan við bæinn Fiskilæk og að Hvalfjarðargöngum. Það sjá allir sem það vilja að þetta er glórulaust. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum yfir þann fjölda slysa sem orðið hafa og næstum því slysa þegar t.d. einhver þarf að beygja eða reynir framúrakstur á þessum kafla. Þau eru alltof mörg og sum hver mjög alvarleg.

 

 

 

Hvað er til ráða? Það er mjög einfalt í mínum huga og hefur verið það lengi, enda oft haft orð á því við ýmis tækifæri og einnig við ýmsa málsmetandi menn, bæði sveitarstjórnarmenn, þingmenn og meðal annars ráðherra samgöngumála. Það skemmtilega við viðbrögð allra viðmælenda minna er að allir eru sammála um að þetta sé rétta leiðin, en lengra nær það ekki. Tel ég nú rétta tímann til að menn hristi rykið af gömlum hugmyndum, bretti upp ermar, breyti skipulagshugmyndum og láti ekki gamlar kreddur eða hreppapólitík trufla. Samgöngubætur þær sem ég er að tala um er að þjóðvegur eitt (Hringvegurinn) færist vestur fyrir Akrafjall, sveigist meðfram Akrafjallinu eftir að norður fyrir fjallið er komið og liggi síðan í sveig niður á milli bæjanna Óss og Hvítaness að Grunnafirði. Þar kemur brú yfir og síðan liggur vegurinn upp Melasveitina milli bæjanna Áss og Súluness upp á núverandi Hringveg norðan við gatnamótin niður í Melasveit norðan við bæinn Fiskilæk. Vegur þessi frá Hvalfarðargöngum og alla leið í Borgarnes, verði 2+2 eða 2+1 að hluta, mjög sambærilegur öðrum vegum sem liggja út frá höfuðborgarsvæðinu eins og vegurinn austur yfir Hellisheiðina og ekki síður Reykjanesbraut sem margoft hefur sannað ágæti sitt eftir miklar endurbætur sem á henni voru gerðar. Slysum hefur stórfækkað á þessum leiðum.

 

Það er í mínum huga miklir hagsmunir í þessu máli fyrir mjög marga, ekki síst og kannski númer eitt, tvö og þrjú það er öryggi vegfarenda. Þessi leið myndi liggja um mun gisnari byggð með færri inn- og útafakstursleiðum, (kannski 10), ekki ólíkt Reykjanesbrautinni þar sem maður verður nánast ekki var við gatnamót t.d. í Vogana eða til Grindavíkur sem ég gæti séð fyrir mér að yrði svipað til Akraness. Einnig útakstur í Melasveitina og fleiri staði ásamt hringtorginu við Hvalfjarðargöngin sem yrðu að mestu óbreytt. Vegurinn frá göngunum að Grundartangasvæðinu yrði mun minna ekinn og mun öruggari fyrir þá miklu umferð sem þangað er og á eftir að aukast til muna við frekari fjölgun fyrirtækja á því svæði. Mjög mikill sparnaður yrði vegna styttingar vegalengda. Stytting Reykjavík-Borgarnes yrði ca. 2 km, Akranes –Borgarnes ca. 7 km. Mér sýnist á lauslegum útreikningu mínum að sparnaður umferðarinnar gæti verið ca. 100 milljónir á ári. Gaman væri að fá útreikning mér fróðari manna um þá hluti út frá umferðarspám og talningum. Ekki má gleyma því að styttri akstur veldur minni mengun, sem er mjög mikilvægt í umhvefi okkar í dag.

Byggðarlögin á þessu svæði hafa öll með tölu mikilla hagsmuna að gæta sem og þeir sem um veginn fara. Ég tel að ekki hafi allir áttað sig á umfangi þeirra. Hvalfjarðarsveit er það sveitarfélag sem þessi vegur liggur um, bæði núverandi þjóðvegur og einnig nýr og breyttur vegur ef farið verður í þá framkvæmd. Trúi ég ekki öðru en að af því verði. Hagsmunir sveitarfélagsins eru geysilega miklir.

 

Núverandi vegstæði kallar á miklar umbætur sem aftur kallar á mikið landrými og takmarkar þróun byggðar á svæðinu t.d. byggðakjarnann í Grundarhverfinu (Hagamel). Ég gæti séð fyrir mér að í framtíðinni gæti byggð þróast í átt eða út á Lamhaganesið eða altént gæti það orðið útivistarsvæði. Einnig gæti orðið þétting byggðar í Leirársveitinni sem þegar er vísir að. Þá væri þjóðvegur eitt í gegnum íbúðabyggð með þeim hættum sem því fylgir. Mörg fjölfarin gatnamót koma inn á þjóðveg eitt í dag. Má þar nefna tvö gatnamót niður í Melasveit, gatnamót upp í Leirársveit, inn í Hvalfjörð, niður á Akranes, Grundartanga, auk fjölda sveitabæja, malarnámur og fleira. Engu af þessu má loka. Því þarf að gera fjölda stoðvega, undirganga og margt fleira sem kallar á mikið landrými og takmarkar þéttingu byggðar sem ég sé fyrir mér að eigi ótakmarkaða möguleika ef vel er á málum haldið. Ég óttast að þessi fallega sveit skaðist mjög ef núverandi vegstæði verður notað til uppbyggingar vegarins. Miklir vaxtarmöguleikar eru á þessu svæði vegna nálægðar þess við Grundartanga sem er í sama sveitarfélagi. Mikil fjölgun íbúa tel ég að verði þar á næstu árum og því er geysilega mikilvægt að skoða og undirbúa framtíðarskipulag svæðisins sem allra best. Það er alveg ljóst að mjög takmarkaðar tekjur koma til sveitarfélagsins af þessari miklu umferð sem fer um veginn, þá verður um mikinn kostnað að ræða vegna flóknara skipulags og takmarkana á þróun annarrar byggðar. Aftur á móti veldur öll þessi umferð mikilli mengun og ónæði.

 

Ekki má gleyma því að sjálfsögðu tekur ný leið einnig landrými en þó mun minna og þar er byggð ekki eins þétt. Það er líka ljóst að um þetta verða skiptar skoðanir, miklir hagsmunir íbúa sem vilja ekki hafa veginn hjá sér, hann skemmi tún eða annað og valdi ónæði og mengun. Þetta er allt rétt en einhversstaðar verða vondir að vera. Því er mikilvægt að velja besta kostinn, kost sem mengar minnst, veldur minnsta ónæðinu og er öruggastur fyrir vegfarendur. Núverandi vegur gæti til langs tíma dugað í sveitarfélaginu með litlum breytingum eða viðhaldi. T.d. frá Hvalfjarðargöngum að Grundartangasvæðinu sem myndi losna að miklu leyti við aðra umferð en þangað á erindi og í sveitasæluna í nágrenninu.

Þá er hagsmunir miklir fyrir byggðarlögin sem liggja næst Hvalfjarðarsveitinni, Akranes, Borgarfjörðinn og allt Vesturlandið. Samvinna þessara sveitarfélaga er mikil á ýmsum sviðum og á bara eftir að aukast. Til að mynda eru öflugir skólar, t.d. háskólar og fjölbrautaskólar á svæðinu, sjúkrahúsið á Akranesi og aðrar heilbrigðisstofnanir á svæðinu sem vinna saman, stjórnsýslan er að skreppa saman með sameiningu stofnana og ýmsa aðra atvinnu stundar fólk á milli staða og þá skipta samgöngumálin miklu. Marga aðila á þessu svæði öllu hef ég rætt við, öllum finnst að þetta verði mikil samgöngubót.

 

Akraneskaupstaður hefur mikilla hagsmuna að gæta í þessu máli, þar sem þjóðvegur eitt færist mun nær bænum án þess að ókosta þess nái að gæta að einhverju marki. Bæjaryfirvöld og aðrir bæjarbúar hafa oft verið að leita leiða til að ná ferðafólki til bæjarins. Ég tel þetta bestu leiðina til þess, þjóðvegur eitt verður aðeins 3-4 kílómetra frá bænum. Síðan er það bæjarbúa að finna út úr því hvernig þeir nýta það. Þetta ætti að efla og bæta verslun og þjónustu í bænum. Ég tel ekki æskilegt að vegurinn komi nær bænum t.d. í gegnum Höfðaselið eða flóann þar fyrir ofan. Það er landrými sem þarf að vera til þannig að kaupstaðurinn geti dafnað og stækkað óhindrað til langs tíma án þess að hringvegurinn skeri byggingarsvæði.

 

Friðun Grunnafjarðar

Grunnifjörðurinn er mjög fallegur og merkilegur fjörður fyrir margra hluta sakir. Hann er friðaður samkvæmt Ramsarsáttmála frá 1971 sem var formlega undirritaður í borginni Ramsar í Íran og hefur alla tíð verið kenndur við hana. Ísland gerðist aðili að þessum sáttmála 1978. Grunnifjörðurinn var friðaður samkvæmt þessum samningi 1994 og var þriðja svæðið á Íslandi. Áður var búið að friða Mývatn og Laxá í S-Þingeyjarsýslu og Þjórsárver. Ég tel að Þingvöllum hafi einnig verið bætt við. Grunnifjörður er einnig merkilegur fyrir þær sakir að hann er líklegast lengsti fjörður við landið sem nánast tæmist á stórstreymsufjöru og fyllist síðan aftur tólf tímum síðar.

 

Nánar um friðun og annað er henni við kemur. Ég vitna í greinasafn í Mbl. 31. janúar 1998. Þar segir að í Grunnafirði eru víðlendar leirur sem margir vaðfuglar, eins og sendlingur og tjaldur, byggir afkomu sína á, auk mikils fjölda af æðarfugli. Margæsir og aðrir umferðarfuglar hafa viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna vor og haust. Um ósinn synda laxar á leið í Laxá í Leirársveit. Hugmyndir hafa verið upp að eyðileggja Grunnafjörðinn með því að brúa hann og skapa skilyrði fyrir fiskirækt innan brúar, en engin getur tekið slíkar hugmyndir alvarlega. (Innsk. sammála því). Það gæti aldrei gengið að vera með fiskeldi í firðinum með veiðiárnar Laxá og Leirá við botn fjarðarins.

 

Ekki veit ég hvaða vísindarannsóknir hafi farið fram áður en fjörðurinn var friðaður. Enn síður eftir að það var gert. Mér er til efs að það hafi verið gert á einhvern skipulagðan hátt. Einnig er mér ókunnugt um hvað þessi friðun (sem ég er ekki á móti) hafi gert fyrir svæðið. Ég tel að nýr vegur við mynni Grunnafjarðar sé besta friðun sem fjörðurinn getur fengið þar sem að umferð yrði mun minni við botn fjarðarins og minni hætta á ýmiskonar mengun eða öðru raski. Ég veit ekki til þess að neinir fjármunir hafi komið til þess að laga eða gera eitthvað til að bæta umgang eða annað við fjörðinn. Það er þó skylt að nefna það að það stóð til að setja upp skilti sem benti á hvar þessi merkilegi fjörður væri fyrir nokkrum árum en mér er ekki kunnugt um að það sé komið upp. Það eina sem ég veit um er að friðunin er notuð sem mótmæli eða hindrun við þessa miklu samgöngubót sem vegur og brú við mynni Grunnafjarðar myndi vera. Það hlýtur einnig að vera mikilvægt að friðun og verndun eins svæðis verði ekki til þess að gengið sé á önnur svæði sem líka eru miklvæg sem mér sýnist að geti orðið ef núverandi vegstæði verður notað með öllum þeim viðbótum sem þá þarf.

 

Skýrsla Vegagerðarinnar 2009

Vegagerðin lét gera ýtarlega skýrslu um þessa framkvæmd árið 2009 og fékk til verksins VSO Ráðgjöf sem fékk einnig til liðs við sig sérfræðinga frá virtum stofnunum á hinum ýmsu sviðum er snert gætu þessa framkvæmd. Niðurstaða þeirra er að skýrslugerðinni komu var að vel mætti fara í þessa framkvæmd án þess að skaða lífríki fjarðarins eða valda truflun á ferðum eða viðkomu fugla við fjörðinn. Nánast einu skilyrðin voru þau að ekki mætti hindra með nokkru móti vatnaskipti í firðinum. Það var niðurstaða verkfræðinga Vegagerðarinnar að það væri vel framkvæmanlegt.

 

Tilgangur og markmið framkvæmdanna (útdráttur)

Ljóst er að mikil þörf er á endurbótum á Hringveginum frá Hvalfjarðargöngum að Borgarnesi með tilliti til umferðaröryggis. Uppbygging núverandi vegstæðis er ýmsum vandkvæðum háð, m.a. sökum þess að núverandi lega er á köflum ekki góð sökum lítils landrýmis, fjölda tenginga og nálægðar við byggð. Einn kostur er að færa legu Hringvegarins vestur fyrir Akrafjall og yfir Grunnafjörð. Til að fá svar við því var ráðist í gerð skýrslu um verkefnið.

 

Niðurstaða og umsögn Vegagerðarinnar (útdráttur)

Núverandi lega Hringvegar austan og norðan við Grunnafjörð hentar ekki vel fyrir mögulega tvöföldun þar sem mjög þrengir að veginum, margar tengingar eru einnig á þessum vegkafla og umferðaröryggi ekki eins og stefna skal að við uppbyggingu vegakerfisins. Í samræmi við það hefur Vegagerðin skoðað þann kost að færa legu Hringvegar vestur fyrir Akrafjall og yfir ósa Grunnafjarðar. Sú leið kæmi til með að stytta leiðina á milli Akraness og Borgarness töluvert auk styttingar á Hringvegi, auk þess sem hægt væri að nota núverandi Hringveg um Hvalfjarðarsveit sem innansveitar vegakerfi á svæðinu. Einnig þykir lega lands og landrými á þeirri leið ákjósanleg fyrir mögulega tvöföldun vegarins og sú leið felur í sér mun færri tengingar og því meira umferðaröryggi. Ef ráðist verður í framkvæmdir á Hringvegi yfir Grunnafjörð er það markmið Vegagerðarinnar að tryggja með öllum ráðum, full vatnaskipti í firðinum, gæta að óæskilegum áhrifum á lífríki og fuglalíf fjarðarins, skoðaður verður möguleiki á að fara út fyrir friðlýst svæði á Súleyri og brúa yfir tvö lítil lón sem gætu skarast við veglínuna. Vegagerðin mun standa fyrir öllum þeim ransóknum sem þurfa þykir til að lífríki fjarðarins verði ekki fyrir skaða.

 

Megin niðurstaða þessarar greinagerðar er, byggð á fyrirliggjandi gögnum að brú breyti sjávarföllum óverulega, að nýr hringvegur um Grunnafjörð sé raunhæfur kostur.

 

Að lokum

Það vekur mér mikla furðu hvað þessi að mér virðist, vandaða skýrsla Vegagerðarinnar sem vitnað er í hér hefur vakið litla athygli og umræðu. Vona ég að úr því verði nú bætt og málið tekið til alvarlegrar umræðu. Það er eins og það vanti einhvern sem hefur verulegra hagsmuna að gæta til að þrýsta á að eitthvað verði gert, Mér finnst þeir vera ótalmargir sem hafi hagsmuni að gæta og skora ég nú á þá að láta í sér heyra. Hvað með Umferðarráð, sveitarsjórnarmenn, hvar eru þingmennirnir okkar, samgöngunefnd Alþingis, íbúar á svæðinu og aðrir vegfarendur? Það eru allsstaðar hagsmunir í þessu máli. Þetta er mjög aðkallandi verkefni vegna öryggis vegfaranda og því milvægt að farið verði í framkvæmdir hvað leið sem verður farinn á næstu 5-10 árum. Mörgu væri hægt að bæta við í þessa samantekt en ég læt það vera að sinni. Þessi samgöngubót er geysilega mikilvæg fyrir sveitarfélögin á svæðinu og vegfarendur alla. Það hljóta allir að sjá.

 

Ólafur Óskarsson

Höf. er áhugamaður um bætta byggð og öruggari umferð.

 

Senda á Facebook
Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is